Fyrirheitna landið Evrópa

Það er ekki oft sem Íslendingar lenda í að stór hópur laumufarþega komi sér fyrir í geymslurými eða flotkvíum báta sinna eins og gerðist nú á dögunum. Slíkt er hins vegar nær daglegt brauð á Miðjarðarhafinu þar sem þetta gerðist. Fólk frá hinum ýmsu Afríkuríkjum, í langflestum tilfellum ungir karlmenn, leggja líf sitt að veði til að komast til fyrirheitna landsins Evrópu. Því miður heyrir til undantekninga tilfellin sem fréttist að allur hópurinn hafi komist lífs af. 

Við getum aðeins byrjað að ímynda okkur þær hryllilegu sálar- og líkamskvalir það hefur í för með sér að ferðast um ekki svo hlýtt Miðjarðarhafið í flotkví, marrandi í hálfu kafi án nokkurs útbúnaðar, matar eða drykkjar. Haldandi dauðataki í flotkvína, svefn- og máttvana og taka loks eftir að eitthvað af samferðafólki þínu er farið að fljóta máttvana í kringum þig. 

Reglulegar fréttir af slíkum laumufarþegum, oft illa úti leiknum og örvæntingarfullum sendum aftur til síns heima eftir að þeim er náð, bera hinsvegar ekki með sér fréttirnar af þeim sem komast alla leið til fyrirheitna landsins. Oft eru það heilu fjölskyldurnar sem hafa lagt allt sitt fjármagn undir til að einn úr fjölskyldunni komist til Evrópu. Vonir heils smáþorps liggur oft á herðum eins ungs manns, að hann komist til Evrópu þar sem næga vinnu er að fá og að peningarnir fari að streyma heim. Sögur eins og hvernig í Evrópu allir fái nýja skó í hverri viku ganga fjöllunum hærra og er Evrópa glædd ævintýralegum vonarljóma um betra líf. 

Raunveruleikinn sem bíður þessara ungu manna er hins vegar all fjarri þeim vonum sem bundnar voru við hið hættulega ferðalag og þær fórnir sem færðar hafa verið. Án landvistar eða atvinnuleyfis bíður þeirra ekkert nema gatan og leit í ruslatunnum eftir fæði. Ef þeir gefa sig fram við yfirvöld verður þeim umsvifalaust snúið aftur til síns heima. Heim í þorpið sitt geta þeir hins vegar ekki aftur snúið tómhentir, mislukkaðir. Án formlegra pappíra frá yfirvöldum eru þeir hins vegar ekki til í landinu. Þeir geta ekki leitað sér að vinnu, sótt tungumála- eða önnur námskeið eða leigt sér húsnæði. Staðan er óbærileg á sama tíma og Evrópa er enn að herða reglur um innflytjendur. Nýr forseti Frakklands mun jafnvel senda til baka ólöglega innflytjendur sem þrátt fyrir allt hafa náð að koma undir sig fótunum og eru jafnvel búnir að vera búsettir í landinu í tugi ára. Framtíðin er því döpur fyrir þá fáu sem komast lífs af til fyrirheitna landsins.


Þrælahald í Evrópu

Í LAUGARDAGSBLAÐI Morgunblaðsins frá 3. mars síðastliðnum las ég grein Flóka Guðmundssonar um heimildarmyndina China Blue eftir kínversk-bandaríska leikstjórann Micha X. Peled, sem var staddur á Íslandi á dögunum með mynd sína. China Blue fjallar um örlög farandverkamanna í Kína, sem sækja úr sveitunum til borganna eftir betri lífsgæðum en verða að sætta sig við þrælavinnu og ill kjör.

Það er alltaf svo auðvelt að lesa um eymd annarstaðar í heiminum og ímynda sér í leiðinni hvað við búum nú í góðu samfélagi hér í Evrópu þar sem reglur um lágmarkslaun og vinnutíma eru virtar.

Þar sem ég hef búið í París um nokkurn tíma veit ég að slíkt þrælahald er hinsvegar engan veginn einskorðað við Kína. Fata- og ferðatöskuheildsölur hafa risið hér upp eins og gorkúlur undanfarin ár. Hvert einasta verslunarhúsnæði á ákveðnum svæðum hefur verið keypt af Kínverjum og nú er svo komið að heilu hverfishlutarnir eru svo undirlagðir að ekki finnst lengur bakari, kaupmaður eða slátrari í nágrenninu.

Reglulega fáum við fréttir af "rassíum" sem lögreglan hefur gert inn á vinnustofur slíkra heildsala, staðsettar í gluggalausum kjöllurum og bakherbergjum þar sem ólöglegir kínverskir innflytjendur vinna myrkranna á milli til að borga skuld sína við þá sem komu þeim inn í landið. Við sjáum að fatahrúgum er rutlað til og frá og undir finnst einstaklingur sem reynir að fela sig til að verða ekki sendur aftur til Kína. Þetta er ný gerð af þrælahaldi. Þrælahald þar sem þrællinn kemur sér sjálfur í ánauðina og felur sig þegar stöðva á ólöglega starfsemina.

Tveggja til fimm ára ánauð virðist vera meðalgreiðsla fyrir að komast frá Kína til Evrópu auk peningaþóknunar fyrir brottför. Aðstæður verkamannanna eru svipaðar þeim sem Flóki lýsir úr myndinni China Blue. Fimmtán til sextán manns deila með sér um tuttugu fermetra herbergi, einu salerni, einni sturtu og tveimur eldunarhellum. Vinnutíminn getur farið upp í 20 stundir á sólahring, sjö daga vikunnar og sem ólöglegir innflytjendur fá þeir hvorki aðgang að heilbrigðis- né menntakerfi landsins.

Miðað við þá gífurlegu aukningu sem hefur átt sér stað í þessum heildsölum á seinustu árum er auðvelt að gera sér í hugarlund hversu arðbærar þær hljóta að vera fyrir eigendurna. Varan er framleidd á staðnum með sama kostnaði og í Kína og ekki þarf lengur að borga sendingarkostnaðinn til Evrópu.

Þessi starfsemi hefur ekki einungis komið niður á hverfisandanum, sem virðist algerlega horfinn á þessum svæðum, heldur einnig á frönskum iðnaði sem ekki er samkeppnishæfur í verði við þær vörur sem unnar eru án nokkurs tillits til franskra laga um lágmarkslaun eða annarra gjalda.

Misréttið hangir inni í fataskápum hjá hverju og einu okkar án þess að við gefum því að jafnaði mikinn gaum. Það er svo miklu auðveldara að finna til með þeim sem þjást svo langt í burtu frá okkar raunveruleika.

Höfundur er doktorsnemi í mannfræði við Paris Diderot-háskólann.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband